2.3.2009 | 10:39
Er frjálshyggja og kapítalismi eitt og það sama?
Er frjálshyggja og kapítalismi eitt og það sama?
Að mínu mati er þetta tvennt ekki það sama þó svo að einfaldir fréttahaukar rugla þessu svo mikið saman að enginn veit lengur hvort er hvað. Frjálshyggja snýst um frelsi einstaklingsins um að ráða eigin lífi til eigin athafna. Kapítalismi snýst um það að afla sér eigna og lifa á eigum sínum og fjármagni. Frjálshyggja getur leitt af sér kapítalisma ef vel gengur, þ.e. eignir hrannast upp. Of margir misskilja frjálshyggjuna. Menn halda að frelsi til að ráða eigin lífi tákni að maður verður að gerast auraapi. Það er ekki skilda að græða meiri peninga en aðrir. Það er ekki skylda að taka þátt í lífsgæðakapphlaupinu. Það er engin krafa um að keppast við að komast á topp Fortune 500 eða topp 200 í Frjálsri verslun. Það er bara einn möguleiki af mörgum sem lífið hefur upp á að bjóða. Þitt er valið.
Það er ekki hægt að segja að kapítalismi sé slæmur. Ellilífeyrisþegar lifa af því sem þeir hafa safnað upp um ævina. Það er ekkert rangt við það. Það er ekkert rangt við að lifa af arfi eða njóta velgengi í viðskiptum. Það er hins vegar rangt að fara á sveig við almennar leikreglur til þess eins að græða meira. Það er rangt að svíkja og rangt að brjóta lög. Það er rangt að beygja markaðinn undir sig. Það er rangt að ljúga. Þetta er vandamálið sem við eigum við að etja í dag. Almennt siðleysi í viðskiptum og reyndar víðar í vestrænum nútímasamfélögum.
Vandinn liggur í fjármálakerfinu. Menn kaupa og selja fyrirtæki til þess eins að græða. Menn handfjatla peninga til þess eins að græða. Fyrirtækin eru ekki vandamálið. Það eru þau sem skapa raunveruleg verðmæti. Fyrirtækin og fólkið sem vinnur í fyrirtækjunum. Bændur, sjómenn, framleiðslufyrirtæki, verslun, iðnaður, framkvæmdir og þjónusta. Þessu góða fólki sem vinnur á frjálsum markaði má ekki rugla saman við kapítalista sem græða á afleiðum þeirrar verðmætasköpunar sem til verður í þjóðfélaginu.
Menn eru blindaðir af græðgi og stjórnmálamenn hafa ausið olíu á bál græðginnar með glampa í augum í stað þess að stunda það starf sem þeir eru valdir til. Starf stjórmálamannsins er að hugsa um hag þjóðarinnar og það er margþættara en heildarvelta ríkisins. Sjálfstæðismenn hafa tekið það upp á sína arma að reka ríkið eins og fyrirtæki og hámarka gróða ríkisins. Til að tryggja sem mestann gróða þá fara menn að taka meiri og meiri áhættu. Ríkið þenst út. Þarna liggur misskilningurinn. Ríkið á EKKI að taka þátt í áhættusömum viðskiptum. Ríkið á EKKI að stefna að því að auka veltuna. Fyrir alla þá sjálfstæðismenn sem vinna á vegum ríkisins vil ég segja þetta. Stattu við sannfæringu þína og starfaðu á frjálsum markaði. Segðu starfi þínu lausu og nýttu þér frelsið til athafna. Þá fyrst skilurðu hvað frjálshyggja þýðir.
Vandinn liggur í stjórnlausri græðgi kapítalismans en ekki hjá venjulegu fólki sem rekur fyrirtæki öllum til hagsbóta. Munurinn milli frjálshyggju og kapítalisma er svipaður og á milli félagshyggju og kommúnisma. Félagshyggjan hefur margt gott með sér og frjáls markaðsbúskapur líka. Það eru öfgarnir sem vandanum valda. Kommúnismi og kapítalismi. Þó er hægt að finna ýmislegt gott í kommúnisma líka. Þar var þó sama vandamálið að finna og í kapítalismanum. Breyskleiki mannsins. Græðgi og stollt.
Því fyrr sem við lærum að frjáls markaðsbúskapur hefur sannað sig hvað viðkemur rekstri fyrirtækja og að félagshyggjan hefur sannað sig í félagslega kerfinu því betur hugnast okkur í framtíðinni. Losum okkur við öfgana sem eru kommúnismi og kapítalismi. Setjum beisli á fjármálakerfið. Losum okkur í leiðinni við gömlu stjórnmálaflokkana sem kunna ekkert annað en hægri/vinstri baráttu.
Ég vona að nýja Ísland verði laust við "hægri" gegn "vinstri" og "vinstri" gegn "hægri" baráttu. Við þurfum á báðum höndum að halda, báðum fótum að halda og náttúran hefur þróað okkur með sitthvort heilahvelið líka. Vinstri OG hægri. Bæði þjóna sínum tilgangi þó ólíkur sé. Saman mynda hægri og vinstri heild sem hefur skilað okkur til mikillar vegsældar þrátt fyrir allt.
Jón Páll Vilhelmsson - sjálfstætt starfandi listamaður.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:47 | Facebook
Um bloggið
Jón Páll Vilhelmsson
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (8.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Sæll Jón Páll. takk fyrir áhugaverða lesningu , sammála þér um margt og fróðlegt og mikilvægt að velta þessu fyrir sér , ég er sko ekki að því daglega.En samt er þetta það sem skiptir máli og að ná balans á milli þessarra tveggja þátta. Gott að velta fyrir sér græðgi og stolti , hvort er mikilvægara í farteski manns. Jú stolt manns.Til sín , annarra og til náttúrunnar.
Kv Unnur Fríða
Unnur Fríða Halldórsdóttir, 2.3.2009 kl. 10:50
Mjög góður pistill.
Þorsteinn Sverrisson, 9.3.2009 kl. 17:31
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.