26.3.2020 | 16:05
3 stutt jarðgöng í stað Teigskógarleiðar!
Enn er verið að karpa um nýjan veg í gegnum þennan fræga Teigskóg. Stóra spurningin er hvers vegna "besta" leiðin kom aldrei til umræðu. Það er að þvera Þorskafjörð eins og gert er ráð fyrir en leggja 3 stutt jarðgöng í gegn um hálsana þrjá stað þess að fara meðfram sjónum í gegnum ósnortið land í Teigskóg og víðar. Vegstæði yrði nokkurn vegin sama og það er nema farið í gegnum hálsana í stað þess að keyra yfir þá.
Þverun yfir Þorskfjörð c 2-3km.
3.5km göng undir Hjallaháls
1.5km göng undir Ódrúgsháls
1.8 km göng undir Gufudalsháls en þar er ekki vegur.
Samtals eru þetta um 7km af göngum en ættu að kosta minna því eftir því sem göngin eru lengri því lengra er að fara með allt efni ofl. Eftir standa stuttir vegarspottar sem eru orðnir mjög lélegir. Þrætueplið Teigskógur fær að vera í friði og 1 fjörður þveraður í stað 3ja.
Nú kann að vera að vegna Dýrafjarðaganga sem nú hillir undir lokin (opnun) hafi pólitíkin útilokað "Bestu" leiðina. Stefnt er að því að dreifa verkefnum um landið allt.
Ég tel þetta vera bestu framtíðarlausnina. Hún verður líklega dýrust. Þetta er mesta styttingin þó það muni ekki miklu. Minnsti snómokstur, minnsta vegauppbygging og málið leyst.
Núverandi vegur = 46,3
Teigskógaleið = 24,6 - Stytting: 21,7km
3 stutt göng og þverun = 18,3 - Stytting: 25km
Leiðir vegagerðarinnar.
Aðrar greinar:
Samgöngur | Breytt s.d. kl. 16:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
27.11.2010 | 11:40
Flokkar í framboði til stjórnlagaþings!
Í auglýsingu í Fréttablaðinu í dag, 27 nóvember (kjördag), er 10 manna listi einstaklinga sem hefur myndað samkomulag um skipan á lista. Þetta er ekkert annað en Flokkur. Ég hélt að Flokkar gætu ekki boðið fram, eingöngu einstaklingar. "Þingfulltrúar verða kosnir persónukosningu og er landið eitt kjördæmi við kosninguna." segir í tilkynningu frá undirbúningsnefn Stjórnlagaþings 2010.
Auðvitað kemur það ekki á óvart að slíkir hópar birtast á ögurstundu til að laga stjórnarskrá lýðveldisins að sínum sérhagsmunum.
Látum ekki blekkjast og veljum vel valda einstaklinga til verksins ekki þjóna sérhagsmunagæslunnar.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.10.2010 | 21:50
Stjórnlagaþing í hættu!
Það er alveg út úr kú að ég eða 90% annarra íslendinga geti eða nenni að velja milli rúmlega 500 frambærilegra manna og kvenna til að sitja stjórnlagaþing. Það er nógu erfitt að gera upp á milli 4-5 flokka með mis-óljósa stefnuskrá í alþingiskosningum.
Það er hins vegar til einföld lausn á þessu. Þessir einstaklingar sem telja sjálfan sig hæfan til að sitja þingið eru örugglega hæfir til að velja þá 25 sem eiga að semja nýja stjórnarskrá. Það leysir okkur hin undan lýðræðislegri ábyrgð og kemur í veg fyrir að gallar lýðræðisins verða á torg borin. Það eru nefnilega ekki nema nokkrar vikur þangað til það gerist. Þá bætist lýðræðisleg kreppa ofan á stjórnmálakreppu og fjármálakreppu. Lýðræði er alls ekki fullkomið. Það er bara illskáski kosturinn í flókinni tilveru okkar. Eigum við ekki að hlífa lýðræðinu við niðurlægingu. Við höfum það nógu slæmt fyrir.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.4.2010 | 22:24
Gáttir helvítis voru opnaðar.
Ég setti saman myndskeið með eigin myndum frá eldgosinu í Eyjafjallajökli og setti það saman við tónlist frá Muse, "take a bow".
Myndmál, tónlist og text rennur saman í gjörning svo skelfilegan að manni rennur kalt vatn milli skins og hörunds. Eru þessar hamfarir myndlíking fyrir það sem gerðist í okkar þjóðfélagi eða er þetta fyrirboði um það sem á eftir að gerast?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
17.4.2010 | 12:05
Þorgerður nú, Sjálfstæðisflokkurinn næst.
Loksins sér Þorgerður sitt rétta sjálf í speglinum þó þokukennt sé. Það dansaði engin jafn fjálglega kringum gullkálfinn og Þorgerður Katrín. Vonandi er afsögn hennar aðeins upphafið á útlosun óhæfra stjórnmálamanna.
Sjálfstæðisflokkurinn er ekki flokkur frjálshyggju og markaðshyggju heldur flokkur spillingar og sérhagsmuna. Hann er fyrst og fremst kapítalískur flokkur. Flokkur fjármagnsins og þar með óvinur þeirra sem vilja frelsi á mörkuðum. Kapítalisminn vill ekki samkeppni. Það er innantómt orðskrúð. Kapítalisminn vill halda í það sem hann hefur og skipta markaðnum milla fárra stórra aðila. Það skýrir að hluta útþenslu ríkisins s.l. tvo ártugi enda geta menn með rétt sambönd og nægt fjármagn beitt ríkisstofnunum sér og sínum hagsmunum í vil á kostnað skattgreiðenda. Þetta snýst einfaldlega um að samneyslan, sem er langstærstur hluti efnahagskerfisins, renni í gegnum vasa fárra útvaldra.
Þar sem Sjálfstæðiflokkurinn hefur brugðist yfirlýstum markmiðum sínu er réttast að leggja flokkinn niður og hleypa nýjum öflum að. Hér vantar stjórnmálafl sem vinnur að hagsmunum markaðarins, verslunar, iðnaðar og framleiðslu án þess að fórna öryggisnetinu.
Í stjórnartíð Sjálfstæðisflokksins varð ríkið að útblásnu skrímsli sem nú leggst af fullum þunga ofan á undirstöðuatvinnugreinar okkar. Best væri að hreinsa sjálfstæðisflokkin svo vel að einungis grunnur Valhallar standi eftir til vitnisburðar um mislukkaða hugmyndafræði.
Það er smá von til þess að þetta hrun verði til þess að þjóðfélagið verði loksins heilt. Fyrst féll kommúnisminn, nú féll kapítalisminn. Þá snýst þetta ekki lengur um hægri eða vinstri heldur eins og manneskjan er þá þurfum við á báðum helmingum að halda til að vera heil. Það þíðir að vinstri og hægri helmingar þurfa að vinna saman sem ein heild. Það ætti að vera lexia til handa stjórnmálamönnum framtíðarinnar.
Þetta skrifar maður sem trúir á frelsi einstaklingis til athafna en vill líka vera þátttakandi í samneyslu og samfélagi manna.
2.3.2009 | 10:39
Er frjálshyggja og kapítalismi eitt og það sama?
Er frjálshyggja og kapítalismi eitt og það sama?
Að mínu mati er þetta tvennt ekki það sama þó svo að einfaldir fréttahaukar rugla þessu svo mikið saman að enginn veit lengur hvort er hvað. Frjálshyggja snýst um frelsi einstaklingsins um að ráða eigin lífi til eigin athafna. Kapítalismi snýst um það að afla sér eigna og lifa á eigum sínum og fjármagni. Frjálshyggja getur leitt af sér kapítalisma ef vel gengur, þ.e. eignir hrannast upp. Of margir misskilja frjálshyggjuna. Menn halda að frelsi til að ráða eigin lífi tákni að maður verður að gerast auraapi. Það er ekki skilda að græða meiri peninga en aðrir. Það er ekki skylda að taka þátt í lífsgæðakapphlaupinu. Það er engin krafa um að keppast við að komast á topp Fortune 500 eða topp 200 í Frjálsri verslun. Það er bara einn möguleiki af mörgum sem lífið hefur upp á að bjóða. Þitt er valið.
Það er ekki hægt að segja að kapítalismi sé slæmur. Ellilífeyrisþegar lifa af því sem þeir hafa safnað upp um ævina. Það er ekkert rangt við það. Það er ekkert rangt við að lifa af arfi eða njóta velgengi í viðskiptum. Það er hins vegar rangt að fara á sveig við almennar leikreglur til þess eins að græða meira. Það er rangt að svíkja og rangt að brjóta lög. Það er rangt að beygja markaðinn undir sig. Það er rangt að ljúga. Þetta er vandamálið sem við eigum við að etja í dag. Almennt siðleysi í viðskiptum og reyndar víðar í vestrænum nútímasamfélögum.
Vandinn liggur í fjármálakerfinu. Menn kaupa og selja fyrirtæki til þess eins að græða. Menn handfjatla peninga til þess eins að græða. Fyrirtækin eru ekki vandamálið. Það eru þau sem skapa raunveruleg verðmæti. Fyrirtækin og fólkið sem vinnur í fyrirtækjunum. Bændur, sjómenn, framleiðslufyrirtæki, verslun, iðnaður, framkvæmdir og þjónusta. Þessu góða fólki sem vinnur á frjálsum markaði má ekki rugla saman við kapítalista sem græða á afleiðum þeirrar verðmætasköpunar sem til verður í þjóðfélaginu.
Menn eru blindaðir af græðgi og stjórnmálamenn hafa ausið olíu á bál græðginnar með glampa í augum í stað þess að stunda það starf sem þeir eru valdir til. Starf stjórmálamannsins er að hugsa um hag þjóðarinnar og það er margþættara en heildarvelta ríkisins. Sjálfstæðismenn hafa tekið það upp á sína arma að reka ríkið eins og fyrirtæki og hámarka gróða ríkisins. Til að tryggja sem mestann gróða þá fara menn að taka meiri og meiri áhættu. Ríkið þenst út. Þarna liggur misskilningurinn. Ríkið á EKKI að taka þátt í áhættusömum viðskiptum. Ríkið á EKKI að stefna að því að auka veltuna. Fyrir alla þá sjálfstæðismenn sem vinna á vegum ríkisins vil ég segja þetta. Stattu við sannfæringu þína og starfaðu á frjálsum markaði. Segðu starfi þínu lausu og nýttu þér frelsið til athafna. Þá fyrst skilurðu hvað frjálshyggja þýðir.
Vandinn liggur í stjórnlausri græðgi kapítalismans en ekki hjá venjulegu fólki sem rekur fyrirtæki öllum til hagsbóta. Munurinn milli frjálshyggju og kapítalisma er svipaður og á milli félagshyggju og kommúnisma. Félagshyggjan hefur margt gott með sér og frjáls markaðsbúskapur líka. Það eru öfgarnir sem vandanum valda. Kommúnismi og kapítalismi. Þó er hægt að finna ýmislegt gott í kommúnisma líka. Þar var þó sama vandamálið að finna og í kapítalismanum. Breyskleiki mannsins. Græðgi og stollt.
Því fyrr sem við lærum að frjáls markaðsbúskapur hefur sannað sig hvað viðkemur rekstri fyrirtækja og að félagshyggjan hefur sannað sig í félagslega kerfinu því betur hugnast okkur í framtíðinni. Losum okkur við öfgana sem eru kommúnismi og kapítalismi. Setjum beisli á fjármálakerfið. Losum okkur í leiðinni við gömlu stjórnmálaflokkana sem kunna ekkert annað en hægri/vinstri baráttu.
Ég vona að nýja Ísland verði laust við "hægri" gegn "vinstri" og "vinstri" gegn "hægri" baráttu. Við þurfum á báðum höndum að halda, báðum fótum að halda og náttúran hefur þróað okkur með sitthvort heilahvelið líka. Vinstri OG hægri. Bæði þjóna sínum tilgangi þó ólíkur sé. Saman mynda hægri og vinstri heild sem hefur skilað okkur til mikillar vegsældar þrátt fyrir allt.
Jón Páll Vilhelmsson - sjálfstætt starfandi listamaður.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
2.2.2009 | 13:47
Óeirðalögregla gegn snjóboltum.
Þessi færsla átti að birtast strax en gleymdist!!!
Ég var þarna. Ég sá fólkið henda snjóboltum að Alþingishúsinu. Hvað er betur við hæfi fyrir íslendinga en að henda snjóboltum að æðstu stofnun lýðveldisins. Snjórinn brýtur ekkert, meiðir engann. Svo bráðnar hann og skilur enginn ummmerki. Fullkomlega endurnýtanlegur. Ég hló upphátt. Þetta var eitthvað svo fyndið. Svo saklaust!
Ekkert nema örþunnt glerið skildi að almúgan við alþingismenn. Fullkomin nálægð valdhafans við okkur. Þetta var fallegt lýðræði í smáu ríki á hjara veraldar. Reyndar í smá tilvistarkreppu.
Þá ruddist óeirðalögreglan inn í alþingisgarðinn. Gráir fyrir járnum. Brynjaðir í bak og fyrir. Ögrandi í framkomu með tryllingslegt blik í augum. Reiðubúnir til að framkvæma það sem þeir voru þjálfaðir fyrir. Þetta var þeirra stund.
Enginn sakleysislegur úði út í loftið. Piparbunururnar smulli í andlitum fólksins hægri vinstri. Fréttamenn og ljósmyndararar voru sérstök skotmörk birtingarmyndar löggjafarvaldsins. "Allt uppi á borðinu"!
2.2.2009 | 13:38
Eru álver í eigu Íslendinga raunhæfur möguleiki!
Sú spurning hefur leitað á hug minn hvort að það sé virkilega besta lausnin að erlend stórfyrirtæki eigi öll álverin á Íslandi. Er það nóg að við hirðum brauðmolana sem falla til af þessum stóru framkvæmdum? Er það besta lausnin að erlend verktakafyrirtæki og erlendir verkamenn fái tekjurnar af framkvæmdinni. Er það besta lausnin að erlend stórfyrirtæki hirði ágóðann?
Hefur Kárahnjúkaframkvæmdin og álver í Reyðarfirði verið gert upp? Það sem væri skoðunar vert væri að bera saman þessa stærstu framkvæmd íslandsögunnar og sömu framkvæmd á öðrum forsendum, þ.e. ef hún væri framkvæmd og í eigu íslendinga.
Hvað ef virkjunarframkvæmdin hafi verið boðin út og framkvæmd af íslendingum með lögheimili á Íslandi og íslenskum fyrirtækjum að langmestu leiti. Hverju hefði það skilað til Íslands og íslendinga? Einnig sú reynsla sem við hefðum aflað okkur og gætum boðið út á erlendum vettvangi. Mér sýnist að fjárfestingin hafi að mestu leiti runnið út úr landi.
Hvað ef álverið í Reyðarfirði væri í eigu íslenska ríkisins ásamt öðrum fjárfestum innlendum sem erlendum. Hverju myndi það skila í tekjum til íslands.
Ég skil ekki hvers vegna það er hagkvæmt fyrir erlenda frjárfesta að fara í stórar framkvæmdir hér á Íslandi en það er ekki hagkvæmt fyrir innlenda fjárfesta.
Landvirkjun er tilbúin að fara í 100 milljarða fjárfestingu fyrir takmarkaðan ROI. Var ekki fjárfestingin í Álverinu sjálfu eitthvað svipað. Ég myndi halda að hin raunverulega ROI sé í álverunum sjálfum.
Af hverju eru álverin ekki í eigu íslendinga? Ef það á á annað borð að setja upp álver á Bakka og í Helguvík er ekki komin tími til að við sitjum sjálf við stjórnvölinn. Ég er ekki að taka afstöðu með eða á móti álverum. Eingöngu að spyrja hvort við séum að fá eins mikið út úr innlendri orku og þessum stóru framkvæmdum og mögulegt er.
Það er kannski auðveldara að spyrja en svara þessum spurningum! Svör óskast!!!
Bendi hér á góða grein Indriða: http://inhauth.blog.is/blog/inhauth/entry/792595/
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.1.2009 | 11:16
Hér er lausnin á vanda Tónlistarútgefenda.
Setjið tónlistina á Vínilplötur. Vínilplötur er hringlaga svartir diskar með rákum sem tónlistinni er grafið í. Þeir eru mun stærri en geisladiskar og þar með er auðveldara að meðhöndla diskana. Svo er meira pláss fyrir myndir og grafík á plötuumslaginu.
Það þarf sérstakan spilara til að spila plötuna. Þeð er gert með nál sem les "hliðrænt, e. analog" merkið í rákunum og síðan flutt í magnara. Hægt er að tengja þetta tæki við öll venjulega hljómtæki.
Ekki er hægt að afrita vínilplöturnar beint en ef það er vilji til þá er alltaf hægt að finna leið. Vinsælt er að nota svo nefndar kasettur til að taka upp efni á plötunni en það er alveg jafn ólöglegt og að niðurhala stafrænu efni.
Þetta er alveg snilldaruppfinning sem hægt er nálgast í efstu hillum í bílskúrum og uppi á lofti hjá pabba og mömmu og afa og ömmu.
Uppgjöf tónlistarbransans? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Tónlist | Breytt s.d. kl. 11:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
21.1.2009 | 23:12
Viva La Revolution
Til hamingju Íslendingar. Okkur tókst ætlunarverkið. Stjórnin er fallin að frumkvæði skrílsins. Byltingin náði loksins eyrum Samfylkingarinnar og Geir Haarde stendur einn eftir, keikur og ver stefnu sína í efnahagsmálum landsins síðastliðinn áratug.
Loksins verður hægt að komast að rót vandans sem þar sem allir vita að hún er. Í kjarna Sjálfstæðisflokksins.
Kosningar innan seilingar og með nýrri ríkisstjórn með nýju fólki verður hægt að byggja upp réttlátara samfélag.
Undir þetta skrifar maður sem sterka sannfæringu fyrir frelsi og frjálsum mörkuðum en hefur ekki fundið samhljóm með sjálftekju, spillingu og sérhagsmunapólitík Sjálfstæðisflokksins.
Um bloggið
Jón Páll Vilhelmsson
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (20.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar