Færsluflokkur: Bloggar
30.10.2010 | 21:50
Stjórnlagaþing í hættu!
Það er alveg út úr kú að ég eða 90% annarra íslendinga geti eða nenni að velja milli rúmlega 500 frambærilegra manna og kvenna til að sitja stjórnlagaþing. Það er nógu erfitt að gera upp á milli 4-5 flokka með mis-óljósa stefnuskrá í alþingiskosningum.
Það er hins vegar til einföld lausn á þessu. Þessir einstaklingar sem telja sjálfan sig hæfan til að sitja þingið eru örugglega hæfir til að velja þá 25 sem eiga að semja nýja stjórnarskrá. Það leysir okkur hin undan lýðræðislegri ábyrgð og kemur í veg fyrir að gallar lýðræðisins verða á torg borin. Það eru nefnilega ekki nema nokkrar vikur þangað til það gerist. Þá bætist lýðræðisleg kreppa ofan á stjórnmálakreppu og fjármálakreppu. Lýðræði er alls ekki fullkomið. Það er bara illskáski kosturinn í flókinni tilveru okkar. Eigum við ekki að hlífa lýðræðinu við niðurlægingu. Við höfum það nógu slæmt fyrir.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.1.2009 | 02:03
Ingibjörg Sólrún höfundur nýja Íslands!!!
Mikið djö.... varð ég reiður þegar Ingibjörg Sólrún fór að tala um Nýja Ísland sem þau eru byrjuð að byggja upp.
Ingibjörg segir að það megi ekki taka ríkisstjórnina út og benda bara á hana. Ég bendi á ríkisstjórnina OG bankana OG Seðlabankann OG bankaeftirlitið. Þessar fjórar grunnstoðir íslenskt samfélags brugðust allar. Vegna bankaleyndar og þess að enginn axlar ábyrgð get ég ekki bent á þann sem er mest sekur. Þið eruð öll sek. Sum meira en önnur. Bæði afglöp í starfi og aðgerðaleysi í vá telst til óhæfis og í þessu tilviki er það glæpur gegn þjóðinni. Ef þið segið ekki af ykkur þá gerum við það.
Það er fátt í tilverunni jafn svart eða hvítt og traust. Traust er einfalt í eðli sínu. Það annað hvort "er" eða "er ekki". Ef einstaklingur er beittur ofbeldi af öðrum þá er það genetísk hegðun að treysta ekki þeirri manneskju. Hins vegar geta menn lengi talið sig ekki eiga annarra kosta völ en að umbera manneskju sem er ekki treystandi. Í því fellst skollaleikur ráðherra. Að slá ryki í augu almennings. Að snúa útúr. Að drepa málinu á dreif. Að halda að okkur ótta.
Ég treysti EKKI þessum einstaklingum sem nú sitja við völd og mun aldrei nokkurn tíma treysta þeim aftur. Aldrei.
Að halda því fram að þessi sömu andlit og sváfu á verðinum, lugu að okkur þegar við spurðum og beittu óþokkabrögðum, geti skapað traust í þjóðfélaginu er annað hvort einfeldningsháttur eða heimska nema hvoru tveggja sé. Ingibjörg er stolt en stolt gerir menn blinda. Ingibjörg er grimmur stjórnmálamaður sem engu eyrir. Hún þráir völd og ekkert annað. Stjórnmálamenn eins og Ingibjörg eru hættuleg lýðræðinu vegna þess að þau kunna ekki að gefast upp. Útlitið er dökkt þegar lausnin er samtvinnuð vandanum. Þess vegna getur hvorki Ingibjörg né Geir né nokkur annar í ríkisstjórn skapað Nýja Ísland.
Að skapa nýtt Ísland verður verkefni nýrra afla og annarra einstaklinga. Ingibjörg, Geir, Árni, Björgvin og Björn! Ykkur er ekki boðið.
PS: Biðst afsökunar á þessu bloggi. Ég hafði lofað sjálfum mér því að vera málefnalegur og leggjast ekki niður á sama plan og stjórnmálamenn en núna missti ég mig.... Gat ekki orða bundist.
Helvítis fokking fokk...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
26.11.2008 | 22:59
Rangfærsla í frumvarpi um rannsóknarnefnd!
Það er grundvallar-rangfærsla í frumvarpinu um rannsóknarnefndina.
"1. Varpa sem skýrustu ljósi á aðdraganda og orsakir þess vanda íslenska bankakerfisins sem varð Alþingi tilefni til að setja lög nr. 125/2008, um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl. "
Í setningunni er gert ráð fyrir að sú aðgerð alþingis að setja neyðarlög á bankana hafi verið réttmæt til að byrja með!Hvað ef sú aðgerð varð þess valdandi að bankakerfið hrundi? Ég er ekki að leggja mat það hvort það hafi verið rétt eða rangt en ef það á að rannsaka málið verður líka að rannsaka þátt ríkisstjórnarinnar í málinu.
Það eru augljósir annmarkar á því þegar "valdið" rannsakar hvað fór úrskeiðis með "valdið". Þeim mun athyglisverðari var tillaga Gunnars Sigurðssonar á fundinum í Háskólabíó um áheyrnarfulltrúa þjóðarinnar í rannsóknarnefndum. Tillögunni var umsvifalaust hafnað af ríkissstjórninni en svo skipar hún pólitískt valda menn til að stjórna rannsókninni og leggur til frumvarp þar sem stendur skýrt og skorinort að utanaðkomandi áhrif hafi valdið mesta skaðanum.
Að auki er rætt um friðhelgi þeirra sem láta nefndinni upplýsingar í té. Er ekki verið að hvítþvo þá sem voru valdir að íslenska hluta kreppunnar? Væri ekki nær að orða þetta þannig að ákæruvaldið tæki tillit til gagnsemi upplýsinganna ef viðkomandi yrði uppvís að saknæmu athæfi!
Tilvitnun frá www.visi.is "Þá er gert ráð fyrir því að sá sem láti einhver nefndinni í té upplýsingar gegn því að hann verði ekki ákærður er nefndinni heimilt að óska eftir því við ríkissaksóknara að hann ákveði að viðkomandi sæti ekki ákæru."
Er skrítið að almenningur eigi í "pínulitlum" erfiðleikum með að treysta ríkisstjórninni?
Jón Páll Vilhelmsson - ljósmyndari
Rannsóknarfrumvarpi dreift | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 5.12.2008 kl. 22:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.11.2008 | 16:14
Þjóðstjórn nú þegar og kosningar í vor.
Það er ljóst að staða ríkisstjórnarinnar er afar veik um þessar mundir. Við erum komin í úlfakreppu og engir góðir kostir í stöðunni. EKKI er hægt að treysta núverandi ríkisstjórn til að koma okkur út úr vandanum. EKKI er tímabært að kjósa núna. EKKI er víst að hægt verði að mynda nýja ríkisstjórn án kosninga. EKKI er hægt að treysta þeim sem nú sitja á þingi þar sem óljós hluti alþingismanna tengjast spillingaröflunum á einn eða annan hátt. EKKI er ásættanlegt að ákvarðanir séu teknar í bakherbergjum án vitundar þingheims. Það eru ekkert nema vondir kostir í stöðunni og alveg útilokað að argaþras og úlfúð geri nokkurt gang.
Ég legg til að komið verði á Þjóðstjórn með aðkomu allra þingflokka að ríkisstjórn. Þar með yrði starfsfriður tryggður næsta misserið. Umræðan yrði uppi á yfirborðinu. Ekki yrði barist á banaspjótum á meðan. Ríkisstjórnin fengi starfsfrið og þingheimur stæði þétt við bak hennar. Síðan er hægt að kjósa þegar um hægist í vor.
Þegar Geir bað guð að blessa þjóðina þá gat ekki nokkur maður gert sér í hugalund hvað væri um það bil að fara að gerast nema þeir sem starfa í innsta hring ríkisvaldsins. Davið kom snemma með hugmynd að Þjóðstjórn enda hefur hann aðgang að upplýsingum sem útlista hvað er í raun og veru að gerast. Þrátt fyrir þann ókost að Þjóðstjórnarhugmyndin komi fyrst frá Davíði Oddsyni þá má ekki útiloka þann kost út frá því einu saman. Nú þegar heimskreppa er orðin að staðreynd og þjóðargjaldþrot blasir við þá verða allir að vinna saman að leið út úr vandanum. Ástandið sem við erum nú að fara í er hafið yfir flokkadrætti og pólitíska skollaleiki.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.11.2008 | 18:13
3 einfaldar reglur í sambandi við hlutabréfakaup
Það eru einföld sannindi að maðurinn lærir ekki af mistökum sínum nema að því tilskyldu að hann upplifi afleiðingar gjörða sinna.
Athugasemd við bréf. Sjá neðar.
Það eru 3 einfaldar reglur í sambandi við hlutabréfakaup.
Regla nr. 1. Maður tekur ekki lán til að kaupa hlutabréf.
Regla nr. 2. Maður tekur ekki lán til að kaupa hlutabréf.
Regla nr. 3. Maður tekur EKKI lán til að kaupa hlutabréf.
Hvort sem starfsmaður banka brýtur aðeins eina af þessum reglum eða allar þá er viðkomandi óhæfur til að vinna í banka við að gefa öðrum ráðleggingar í sambandi við fjármál.Það kemur mér ekki við hvað starfsmenn banka gera í sínum eigin fjármálum. Það eru hins vegar lög í þessu landi og þau gilda jafn fyrir alla, alltaf, allstaðar.
Ég læt ekki bjóða mér svona framkomu ef rétt er farið með málið. Það eru vissir aðilar í þjóðfélaginu sem hafa farið offari undanfarin ár í fjármálum þjóðarinnar. Það eru þessir aðilar sem hafa eitt um efni fram en ekki við, almúginn. Það eru þessir aðilar sem hafa stefnt okkur í glötun. Það er yfirmáta óþolandi valdhroki að halda því fram að það geti enginn annar komið okkur úr vandanum en einmitt þeir sem komu okkur í vandann. Það á jafnt við um yfirmenn í banka, seðlabanka, fjármálaeftirliti eða ríkisstjórn. Ég hef fulla trú á Íslendingum og veit að hér eru fjölmargir einstaklingar sem eru hæfari til að fást við vandann en þeir sem standa í þessum lykilstöðum í dag.
Mér var ekki boðið í partíið og ég ætla ekki að borga þegjandi og hljóðalaust fyrir peningarplokk og sukk annarra. Við verðum að mótmæla þessari óráðstíu, þessari græðgi, þegjandahætti, baktjaldamakki, stefnuleysi og getuleysi stjórnvalda.
1. Ég fer fram á það að ríkisstjórnin eigi að víkja strax. Núverandi ríkisstjórn hefur haft nægan tíma til að fást við vandann en hún brást of seint og illa við.
2. Ég fer fram á það að yfirstjórn Seðlabanka Íslands skuli segja af sér enda rúin öllu trausti bæði innanlands og utan.
3. Ég fer fram á það að það skuli jafn yfir alla ganga. Það eru lög í landinu og öllum ber að fara eftir þeim ella lúta afleiðingunum.
4. Ég segi upp umboði mínu sem ég veitti Sjálfstæðisflokknum í síðustu kosningum. Hann stendur ekki lengur undir nafni.
5. Ég fer fram á það að þeir sem tóku þátt í ruglinu borgi fyrir það úr eigin vasa, jafnvel þó það taki nokkra áratugi að greiða af lánunum.
Sjálfur hef ég aðeins mótmælt tvisvar um æfina. Ég viðurkenni fúslega að mér hefur fundist það asnalegt og hjákátlegt að mótmæla. Efaðist um að það skilaði nokkrum árangri.Mótmælin undanfarið hafa verið illa undirbúin, mætingin slæleg og kjánalegur rígur milli fylkinga!Við erum einfaldlega ekki í æfingu til að mótmæla en það kemur með tímanum. Við höfum gleymt sjálfsögðum rétti okkar. Finnum taktinn saman og kraftinn í sameiningunni.
Nú ætla ég að mótmæla. Ég kvet þig til að gera slíkt hið sama. Mætum á laugardaginn.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
3.11.2008 | 18:04
Voru skuldir starfsmanna bankanna þurrkaðar út?
Var að fá þetta sent frá einum.
"Yfirmaður áhættustýringar Kaupþings tapaði 2 milljörðum (mest tekið á láni) og allar skuldir hreinsaðar við hann og mörg hundruð aðra bankastarfsmenn sem tóku lán frá 10-1000 milljónir til að kaupa hlutabréf, sumir fengu sér cruiser 100 jeppa, fjármögnuðu heimsreisur og lúxus heimili. Allar skuldir hreinsaðar upp svo þeir geti hafið störf í nýju ríkisbönkunum okkar. Rökin sem FME og ráðamenn færa fyrir þessu er að það sé ómögulegt að manna yfirmannastöður í nýju bönkunum nema þetta sé gert, því lögum samkvæmt mega gjaldþrota einstaklingar ekki starfa fyrir banka!!! Fyrir mér er þetta stríðsyfirlýsing við okkur venjulegu borgarana í þessu landi sem erum flest með lán í þessum bönkum. Ef skuldir og sukk þessara óreiðumanna eru sópaðar útaf borðinu þá vil ég að það sama gangi yfir alla!!!!!! tugþúsundir töpuðu stórum hluta af sparnaði sínum, tugþúsundir venjulegra hluthafa í bönkunum töpuðu öllu sínu.... ég gæti haldið endalaust áfram... ég hef aldrei reiðst eins mikið á ævi minni og þegar ég heyrði þetta.
þetta er hámark spillingarinnar og hvet ég ykkur til að hafa samband við sem flesta og beina reiði ykkar að þingmönnum okkar. Þetta endar með ofbeldi annars.
Með kveðju"
Undirskrift.......
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Um bloggið
Jón Páll Vilhelmsson
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (8.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar